Súkkulaðikaka Allt í köku

Súkkulaðikaka Allt í köku – fyrir u.þ.b. 25 manns

150g smjör
150g smjörlíki
320g sykur
200g púðursykur
4 egg
1 msk vanilluextrakt
250ml sterkt kaffi
140g sýrður rjómi 18%
85g kakó
340g hveiti
2 tsk lyftiduft
1 tsk matarsódi

 1. Hitið ofninn í 160 gráður á undir- og yfirhita.
 2. Setjið bökunarpappír í botninn á þremur 23 cm formum og penslið með matarolíu.
 3. Hellið upp á 250ml af sterku kaffi og blandið sýrðum rjóma og kakói saman við. Leyfið að kólna aðeins.
 4. Þeytið smjör og smjörlíki á miklum hraða þar til smjörblandan verður ljós og loftmikil.
 5. Bætið sykri og púðursykri saman við og þeytið vel saman.
 6. Bætið við einu og einu eggi í senn og þeytið vel á milli.
 7. Bætið vanilluextrakt út í og blandið vel. Við mælum með Madagaskar vanillu, hún gerir gæfumuninn.
 8. Blandið hveiti, lyftidufti og matarsóda og hafið sigti við höndina.
 9. Hellið helmingi kaffiblöndunnar í deigið og þeytið vel.
 10. Sigtið helming hveitiblöndunnar út í deigið og skafið skálina með sleif til þess að allt blandist vel.
 11. Hellið restinni af kaffiblöndunni út í og hrærið vel.
 12. Sigtið restina af hveitiblöndunni út í skálina og hrærið saman þar til deigið er kekkjalaust.
 13. Hellið deiginu í mótin og sléttið úr því með litlum spaða.
 14. Bakið í 35 mínútur, eða þar til bökunarnál kemur hrein úr kökunni miðri. Ef bakað er á tveimur hæðum þarf kakan af neðri grind að færast upp þegar hinar eru teknar út og bakast í 8 mínútur í viðbót. Kakan er tilbúin þegar botnarnir hafa fallið niður í miðjunni.
 15. Kælið í nokkrar mínútur í mótinu og færið botnana síðan á kæligrindur. Látið botnana snúa rétt á grindunum með bökunarpappír undir. Annars er hætt við að kakan festist við grindina.

Vanillusmjörkrem Allt í köku

250g smjör
250g smjörlíki
520g flórsykur
1 ½ tsk vanilluextrakt

Fyrir súkkulaðismjörkremið:
1 ½ tsk sterkt kaffi
35g kakó

 1. Þeytið smjör og smjörlíki á miklum hraða þar til það verður mjög ljóst og loftmikið.
 2. Bætið flórsykri saman við og þeytið á miklum hraða í nokkrar mínútur. Ef þið þeytið á litlum hraða verður smjörkremið linara.
 3. Setjið vanilluextrakt saman við og þeytið í nokkrar mínútur í viðbót.
 4. Skiptið kreminu í tvo hluta og bætið kaffi og kakói saman við annan helminginn.

Setjið súkkulaðismjörkrem á milli botnanna og þunnt lag allan hringinn. Kælið og hjúpið kalda köku með vanillusmjörkremi. Litið kremið að vild.

Súkkulaðikakan er best ef hún er sett saman deginum áður en hún er borin fram. Þá nær kremið og kakan að samlagast og kakan verður þéttari og betri. Kakan geymist í allt að 10 daga í kæli og það má frysta hana, með kremi eða án.